9000 skammtar á viku

9000 skammtar á viku

Maul afhenti 9.000 máltíðir í síðustu viku og stefnir á meira en 400.000 á árinu. Ný sölurás fyrir veitingastaði og einfaldara hádegishlé fyrir vinnustaði.

Maul afhenti yfir 9.000 máltíðir í síðustu viku og stefnir á yfir 400.000 sendingar á árinu. Við einföldum hádegishléið fyrir vinnustaði og búum til nýja sölurás fyrir veitingastaði. Fjallað var um þennan árangur og Maulið almennt í Viðskiptablaðinu og Bylgjunni.

📰 Umfjöllun Viðskiptablaðsins hér

🎧 Upptaka úr Býtinu á Bylgjunni hér


Einfaldara fyrir fólk, skilvirkara fyrir fyrirtæki

Þjónusta Mauls veitir fyrirtækjum möguleika á að bjóða starfsfólki sínu upp á hollan og fjölbreyttan mat frá úrvali veitingastaða án mikils umstangs. Fólk pantar í gegnum einfalt viðmót og fær matinn beint í hendurnar – engar biðraðir, skutl eða vangaveltur um hvað eigi að borða í hádeginu.

Með því að samræma pantanir og einfalda dreifileiðir nýtur Maul stærðarhagkvæmni sem skilar sér í hagkvæmri þjónustu fyrir vinnustaði og veitingastaði.


Frá hugmynd í bílskúrnum – að traustu þjónustufyrirtæki

Hugmyndin að Maul kviknaði árið 2017 þegar bræðurnir Egill og Hrafnkell Pálssynir tóku þátt í Startup Reykjavík og fengu tækifæri til að móta fyrstu hugmyndina með aðstoð sérfræðinga og frumkvöðla úr íslensku viðskiptalífi. Með einfalt pantanakerfi og skýra sýn að leiðarljósi hófst vegferðin – sem síðar átti eftir að gjörbreyta hvernig fjölmörg fyrirtæki velja að haga matarmálum í hádeginu.

Fyrsti stóri viðskiptavinurinn var Nova – og reynslan þar lagði grunn að vextinum sem fylgdi. Starfsfólk var ánægt, fjármálastjórinn sá beinan sparnað og Maul óx svo um munaði. Fljótlega fóru fleiri vinnustaðir að bætast við og þjónustan sannaði sig, bæði hvað varðar fjölbreytileika og sveigjanleika.

„Við byrjuðum með gamlar sendibíladruslur og frauðkassa í þröngu húsnæði – en höfðum skýra sýn á að bæta hádegismatarupplifun fólks. Við höfum alltaf lagt meiri áherslu á traustan rekstur og ánægju viðskiptavina heldur en að vaxa of hratt.“

Egill Pálsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Mauls

Þjónustan þróaðist fljótt og árið 2018 sótti Maul um einkaleyfi á tækninni að baki afhendingarfyrirkomulaginu. Tækninýjungarnar vöktu athygli og á næstu árum fékk fyrirtækið styrki frá Tækniþróunarsjóði til áframhaldandi vöruþróunar.

Þegar heimsfaraldurinn skall á árið 2020 stóð Maul frammi fyrir miklum áskorunum en þjónustan hélt velli og viðskiptavinir héldu tryggð sinni. Eftir krefjandi tímabil tók við öflug uppbygging – aukin umsvif og teymi sem styrktist með nýrri þekkingu, reynslu og áskorunum.

Í dag hefur Maul haslað sér völl sem leiðandi þjónusta fyrir fyrirtæki sem vilja bjóða upp á fjölbreyttan og heilsusamlegan hádegismat á einfaldan hátt – og sagan er rétt að byrja.

„Við teljum að hádegishléið sé heilagt. Þetta er lykilstund dagsins – tími til að hlaða batteríin, njóta matar og tengjast samstarfsfólki. Okkar markmið er að öll fyrirtæki geti boðið upp á frábæra mötuneytisupplifun – án þess að reka mötuneyti,“

Egill Pálsson


Markaðstorg sem verður klárara á hverjum degi

Maul flutti nýverið í stærra húsnæði í Síðumúla og undirbýr sig fyrir næstu vaxtarskref. Fyrirtækið þróar eigin tæknilausnir sem nýta gervigreind til að bæta upplifun notenda, auka sjálfvirkni og styðja við markmið um betri næringu og ábyrga neyslu.

„Við nýtum tækni til að tengja fólk og mat á skynsamlegri hátt, kerfið okkar lærir af pöntunum, umsögnum og gæðastjórnun á réttum – og þannig verður það stöðugt betra í að para saman framboð og eftirspurn. Stefnan er að útbúa markaðstorg sem stýrir framboðinu sjálft – og lærir inn á smekk og þarfir fólks.“

Hrafnkell Pálsson, tæknistjóri og meðstofnandi Mauls


Maul sem ný sölurás fyrir veitingastaði

Maul er ekki aðeins þjónusta fyrir vinnustaði – heldur líka öflugur samstarfsvettvangur fyrir veitingastaði. Maul hefur skapað nýja sölurás sem hjálpar veitingastöðum að auka veltu sína og ná til nýrra viðskiptavina.

„Við sjáum að þeir veitingastaðir sem leggja sig fram varðandi gæði og stöðugleika uppskera tryggð fólks og aukna sölu. Stærstu samstarfsaðilar okkar selja yfir 2.000 máltíðir á mánuði í gegnum okkur – það getur bókstaflega breytt rekstrargrundvelli þeirra“

Egill Pálsson


Hvað er næst?

Viðskiptavinir Mauls eru af öllum stærðum og gerðum – allt frá opinberum stofnunum til nýsköpunarfyrirtækja. Sumir hafa verið viðskiptavinir allt árið frá upphafi, aðrir nýta þjónustuna yfir ákveðin tímabil eins og yfir sumarmánuðina.

„Við stefnum á að verða leiðandi í Evrópu í hádegisþjónustu fyrir vinnustaði og erum byrjuð að vinna að því erlendis,“ segir Egill að lokum. „Það gæti hljómað metnaðarfullt – en við vitum að það sem við gerum er virkilega að bæta daginn hjá fólki. Og á meðan okkur tekst það, dag eftir dag, þá erum við á réttri leið.“

„Við stefnum á að verða leiðandi í Evrópu í hádegisþjónustu fyrir vinnustaði og erum byrjuð að vinna að því erlendis,“ segir Egill að lokum. „Það gæti hljómað metnaðarfullt – en við vitum að það sem við gerum er virkilega að bæta daginn hjá fólki. Og á meðan okkur tekst það, dag eftir dag, þá erum við á réttri leið.“

Egill Pálsson


Við bjóðum upp á fjölbreytt úrval rétta frá veitingastöðum fyrir vinnustaði alla daga vikunnar. Hver og einn starfsmaður pantar af Maulseðlinum og við sjáum um rest!

© 2025 - Maul Reykjavík ehf - Síðumúli 33, 108 Reykjavík

Við bjóðum upp á fjölbreytt úrval rétta frá veitingastöðum fyrir vinnustaði alla daga vikunnar. Hver og einn starfsmaður pantar af Maulseðlinum og við sjáum um rest!

© 2025 - Maul Reykjavík ehf - Síðumúli 33, 108 Reykjavík